Umhverfissjóður sjókvíaeldis úthlutar 228 milljónum króna

Þann 21. mars 2018 var haldinn stjórnarfundur hjá Umhverfissjóði sjókvíaeldis. Farið var yfir umsóknir um styrki úr sjóðnum og samþykkt hverjir fengju styrk frá sjóðnum fyrir árið 2018.

Stjórn Umhverfissjóðs sjókvíaeldis þakkar fyrir þær mörgu og góðu umsóknir sem bárust í  fjórða kall sjóðsins sem var með umsóknarfrest til 16. febrúar 2018. Stjórnin hefur nú metið umsóknirnar. Alls bárust 33 umsóknir þar sem óskað var eftir styrkjum að upphæð rúmlega 540 milljóna króna. Alls var samþykkt að veita 14 umsóknum styrk að upphæð 228 milljónum króna. Það var ánægjulegt að sjá hversu mikil aukning var á fjölda umsókna í ár. Til samanburðar bárust 16 umsóknir árið 2017 þar sem óskað var eftir styrkjum að upphæð tæplega 150 milljóna króna.

Samþykkt var að veita eftirtöldum verkefnum styrk:

1. Rorum ehf. og Laxar fiskeldi ehf.. Ný aðferð til að greina sjónræn áhrif sjókvía. 1,5 milljónir króna.

2. Stofnfiskur hf. og Hafrannsóknastofnun. Eldi á ófrjóum laxi. 7,0 milljónir króna.

3. Akvaplan-niva. Prófanir á notkun grásleppuseiða og lúsadúka. 8,0 milljónir króna.

4. Tilraunastöðin að Keldum. Uppruni og áhrif nýrnaveiki í fiskeldisstöðvum á Vestfjörðum. 7,5 milljónir króna.

5. Matís og Hafrannsóknastofnun. Þróun SNP-erfðamarkasetts til greiningar á erfðablöndun. 5,0 milljónir króna.

6. Stofnfiskur hf. og Háskóli Íslands. Stjórn á kynþroska hjá eldislaxi. 19,8 milljónir króna.

7. Hafrannsóknastofnun. Mat á burðaþoli fjarða og sjókvíaeldissvæða. 94,0 milljónir króna.

8. Hafrannsóknastofnun. Vöktun á umhverfisáhrifum sjókvíaeldis. 30,0 milljónir króna.

9. Náttúrustofa Vestfjarða. Grunnvöktun á fjöru Ísafjarðardjúps. 6,4 milljónir króna.

10. Hafrannsóknastofnun. Sjálfbærni og vöktun fiskistofna í Langadalsá og Laugardalsá í Djúpi. 24,8 milljónir króna.

11. Rorum ehf., Háskóli Íslands, IRIS AS, Háskólinn á Akureyri, ECOBE og Fiskeldi Austfjarða. Niðurbrot lífræns efnis úr sjókvíum. Aukinn skilningur á hvíldartíma. 8,0 milljónir króna.

12. Arnarlax hf., Matís, Arctic Protein og Háskóli Íslands. Bestun á blæðingu laxfiska og áhrif þess á afurðagæði og umhverfi. 5,5 milljónir króna.

13. Landssamband fiskeldisstöðva og Umhverfisráðgjöf Íslands. Kolefnisspor íslensks laxeldis. 2,5 milljónir króna.

14. Akvaplan-niva. Hrognkelsi – Lífræna lúsaætan. 8,0 milljónir króna.